154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[09:56]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í ár er hækkunin 4,9% á lífeyri almannatrygginga. Það er í samræmi við verðbólguspá Hagstofunnar frá því í júní síðastliðnum. Launa- og rekstrarútgjöld hækka hins vegar um 8,7%. Það er gert ráð fyrir hækkun vísitölu milli áranna 2022 og 2023. Hérna er komin ástæðan fyrir þeirri kjaragliðnun sem búið er að tala um í mörg ár. Það er vegna þess að það er alltaf tekin lægsta mögulega talan þegar kemur að lífeyri almannatrygginga. En þegar kemur að áætlun launa og rekstrarútgjalda þá er miðað við verðbólgu yfirstandandi árs. Það er raunveruleikinn. Svo er alltaf verið að áætla og spá fram í tímann. Það er spáð 4,9% verðbólgu á næsta ári. Hún verður eflaust mun hærri. Meðaltalsverðbólgan í ár er 9,2%. Þetta er ástæðan fyrir kjaragliðnuninni. Og það er ekki rétt sem hæstv. fjármálaráðherra segir, að þetta sé betra fyrir lífeyri almannatrygginga. Þetta er lægri tala sem er valin hérna. Þetta er ástæða fyrir áralangri kjaragliðnun sem er á hverju einasta ári. Þegar kemur að lífeyri almannatrygginga er verið að ætla að öryrkjum og öldruðum annað en launafólki hjá ríkinu þegar kemur að launa- og rekstrarútgjöldum í fjárlagafrumvarpinu. Það getur verið himinn og haf milli spár um verðbólgu á næsta ári og þróunar verðlags og launa á yfirstandandi ári. Það skilja allir. Spá um verðbólgu er undantekningarlaust mun lægri. Þetta hefur leitt til ótrúlega mikillar kjaragliðnunar sem er á ábyrgð fjármálaráðherra og á ábyrgð þessarar ríkisstjórnar. Þannig er nú það. Þess vegna er þetta svar fjármálaráðherra bara hreinn og klár útúrsnúningur.